Verkefnastyrkir 2025 – úthlutun úr safnasjóði 14. febrúar
Höfuðsöfnin þrjú héldu sameiginlegan ársfund í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands á föstudaginn var og í framhaldinu var styrkjum úr aðalúthlutun safnasjóðs úthlutað af menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Loga Einarssyni.
Starfsfólk MMÞ er afar þakklátt fyrir þá þrjá styrki til eins árs sem stofnunin hlaut, samtals að upphæð 3,8 milljónir króna. Styrkirnir skiptast á milli þriggja mikilvægra verkefna sem vinna skal á Sjóminjasafni Þingeyinga í framhaldi af breytingum á sýningu þar síðasta árið.
Styrkirnir gera það mögulegt að fullskrá áður óskráðar sjóminjar, miðla betur sýningu safnsins með upplýsingum í QR kóðum og að taka fyrsta skrefið í að breyta lýsingu húsnæðisins. Við hlökkum til að takast á við fjölbreytt verkefni ársins sem munu bæta safnastarfið enn frekar!
