
HVÍTABJÖRN
Ursus Maritimus
Þetta 12 ára gamla karldýr var fellt í Grímsey í janúar 1969. Það er 2,5 m. á lengd og 370 kg. Þó svo einstaka hvítabirnir geti orðið stærri og þyngri þá er þessi sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandi og sem jafnframt er varðveittur hérlendis. Hann kom til framtíðarvarðveislu í Safnahúsið á Húsvík árið 1980. Karldýrin geta orðið allt að 700 kg. og kvendýrin 350 kg.
Hvítabirnir eru taldir vera á meðal stærstu rándýra veraldar, aðeins ein tegund skógarbjarna getur orðið stærri. Hvítabjörninn er bæði láðs- og lagardýr, þ.e. jafn fær um að lifa í sjó og á landi. Aðalfæða bjarnanna er selur og er hringanóri vinsælastur á matseðlinum.
Fullorðnir hvítabirnir eru einfarar og halda fjarlægð hver frá öðrum, helst ekki minni en um 100 metra og eru því deilur sjaldséðar hjá dýrunum. Hvítabirnir geta hlaupið mjög hratt en þreytast líka fljótt og ef þeir eru eltir reyna þeir að forða sér í sjó þar sem þeir geta synt um dögum saman. Aðeins birnur sem ganga með húna eða eru með ársgamla húna leggjast í dvala í híði yfir vetrartímann en karldýrin eru virk allan veturinn og grafa sig aðeins stöku sinnum í skafl eða láta fenna yfir sig þegar óveður eru hvað hörðust.
Vegna breytinga á búsvæðum af völdum loftslagsbreytinga er hvítabjörninn á lista yfir viðkvæmar tegundir.