Ljósmyndasafn Sigríðar Oddnýjar Ingvarsdóttur er varðveitt í Ljósmyndasafni Þingeyinga og samanstendur af 6.436 glerplötum.
Sigríður Ingvarsdóttir fæddist í Hafnarfirði þann 12. júní 1889 en flutti til Ísafjarðar árið 1896, þá 7 ára gömul. Foreldrar hennar voru hjónin Ingvar Vigfússon blikksmiður frá Litla Nýjabæ við Krýsuvík og Sigríður Árnadóttir frá Þórkötlustöðum við Grindavík. Sigríður átti þrjú systkini, þau Arnfríði, Vigfús og Önnu.
Sigríður Ingvarsdóttir hóf ljósmyndanám á ljósmyndastofu Björns Pálssonar á Ísafirði árið 1906, undir leiðsögn Önnu Andersen. Sigríður veitti síðan ljósmyndastofu Björns Pálssonar forstöðu á árunum 1910-1915. Árið 1914 sótti hún svo um starf á ljósmyndastofu Húsavíkur og veitti henni fyrst forstöðu sumarið 1915 en rak hana svo áfram frá vori 1916 allt til ársins 1942. Stofan var fyrst til húsa í Kirkjubæ, sem Eiríkur Þorbergsson reisti úr gömlu kirkjunni á Húsavík, en frá 1916 var hún til húsa í Þórarinshúsi.
Ljósmyndastofan var í eigu Þórarins Stefánssonar bóksala frá árinu 1907 til 1942, en Þórarinn var jafnframt eiginmaður Sigríðar. Þau hjónin eignuðust fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur en var önnur stúlknanna andvana fædd og hin, Margrét að nafni, lést aðeins 13 ára gömul. Eftir lifðu synirnir Ingvar og Stefán auk þess sem hjónin ólu upp systurson Sigríðar, Hermann að nafni. Sigríður lést á Húsavík árið 1972.
„Þrátt fyrir að Sigríður velji ekki viðfangsefni sín sjálf eru það augu hennar, hendur hennar og hugur sem búa að baki hverri mynd. Hún velur hvernig manneskjan stillir sér upp, hvernig ljósið fellur á hana. Hve nálægt eða fjarri við stöndum manneskjunni. Framköllunin er hennar. Sigríður nálgast fyrirsæturnar án allrar ágengni eða tilgerðar. Lítil stelpa hjúfrar sig upp að afa, ef til vill feimin við konuna með skrítna tækið, bæði brosa þau þó til augnanna. Hundurinn frá Brekku fær einnig að njóta mýktarinnar, fókusinn fellur á höfuð; trýni og augu. Þrátt fyrir að fyrirsætan sitji grafkyrr, sjálfsagt að beiðni eigandans, og tilefnið sé skondið fer ekki framhjá þeim sem horfir á hve falleg myndbyggingin er og einföld.“ (Sigurlaug Dagsdóttir, 2021: 55)
Heimild: Sigurlaug Dagsdóttir, Að fanga þig og tímann: Rannsókn og sýning á ljósmyndasöfnum Sigríðar Ingvarsdóttur og Ragnheiðar Bjarnadóttur, lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði, Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, 2021.
Úrval mynda Sigríðar Ingvarsdóttur