Mannlíf og Náttúra

“Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum” er önnur fastasýningin og er staðsett á miðhæð hússins. Í henni tvinnast saman manngerðir munir úr byggðasafni Þingeyinga við náttúruminjar þannig úr verður skemmtileg heild sem leggur mikla áherslu á náin samskipti manns og náttúru. Sýningin tekur fyrir tímabilið 1850-1950 þegar íslenska bændasamfélagið fór að líða undir lok og nýjar tækninýjungar hófu innreið sína með þeim afleiðingum að fólk fór að fjarlægjast náttúruna í sínu daglega lífi. Þetta er í raun síðasta tímabilið sem fólk þurfti að reiða sig á samspilið við náttúruna til þess að hafa í sig og á. Sýningunni er skipt í steinaríki, dýraríki og jurtaríki og leiða 1. persónu frásagnir heimafólks gestinn í gegnum sýninguna.


Innan “Mannlífs og náttúru” má einnig sjá litla sýningu um sögu Samvinnuhreyfingarinnar þar sem hægt er að kynna sér ríkulega sögu kaupfélaga. Fyrsta kaupfélagið á Íslandi var Kaupfélag Þingeyinga, stofnað árið 1882 á bænum Þverá í Laxárdal. Eftirlíkingu af stofunni þar sem félagið var stofnað má sjá á sýningunni.

Myndir frá sýningunni: Mannlíf og náttúra