Sauðaneshús

Sauðanes á Langanesi er fornfrægur kirkjustaður sem staðsettur er 7 km norðan við Þórshöfn. Prestsbústaðurinn á Sauðanesi, Sauðaneshús, er elsta steinhús í Þingeyjarsýslum, hlaðið úr grágrýti árið 1879, afar sjaldgæf bygging og er einstakt á landsvísu. Í kringum 1957 fór Sauðaneshús í eyði og stóð það kalt og yfirgefið í nærri 40 ár. Um 1990 var ákveðið að endurreisa húsið, sem þá var að hruni komið, og var reist nánast frá grunni, stein fyrir stein og fjöl fyrir fjöl, en endurbyggingin tók um 11 ár. Fallega endurbyggða húsið hýsir nú sýninguna “Að sækja björg í björg” sem unnin var á árunum 202-21. Þar er hægt að fræðast um lífið á Langanesi á þeim tíma sem búið var í Sauðaneshúsi og hvernig prestsbústaðurinn var í raun miðpunktur samfélagsins á svæðinu.

 


Um safnið

Margt merkilegt fólk tengist Sauðanesi og eru upplýsingar um nokkra einstaklinga á sýningunni í húsinu, auk þess sem fjallað er almennt um ýmis störf, til dæmis prestfrúarhlutverkið og stöðu vinnufólks.

Langanes er gjöfult af náttúrulegum auðlindum á borð við rekavið og fjölbreytt fuglalíf og sýningin miðlar því hvernig fólk nýtti sér það sem nærumhverfið hafði upp á að bjóða til þess að lifa af. Náttúran er órjúfanlegur hluti lífsins á Langanesi og því er hún höfð í fyrirrúmi á sýningunni með sérstaka áherslu á fuglalífið á svæðinu.

Sauðaneshús er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en byggðasafnið er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga og er opið gestum yfir sumartímann.

Myndasafn

Sauðaneshús