Úrval mynda Eiríks Þorbergssonar

Úrval mynda Eiríks Þorbergssonar

 

Eiríkur Þorbergsson var fæddur í Syðri-Tungu í Tjörneshreppi árið 1867. Hann var í Noregi um tíma og lærði þar trésmíðar í kringum 1890 en einnig ljósmyndun. Árið 1897 var hann fyrst titlaður ljósmyndari í dómsmálabók.

Á árunum 1896-1906 rak Eiríkur ljósmyndastofu litlum myndaskúr sem brann þó á endanum. Í brunanum tapaðist elsti hluti plötusafns hans.

Árið 1907 byggði hann nýjan myndaskúr og íbúðarhús að Kirkjubæ og notaði til þess timbur úr gömlu Húsavíkurkirkju. Í myndaskúrnum, sem lá með fram langhlið íbúðarhússins að austanverðu, rak hann ljósmyndastofu til ársins 1907.

Árið 1907 eignaðist Þórarinn Stefánsson bóksali myndaskúrinn og þar með ljósmyndastofu Eiríks, en hann var eiginmaður Sigríðar O. Ingvarsdóttur ljósmyndara. Á árunum 1907-1910 starfaði Eiríkur á ljósmyndastofunni hjá nýjum eigendum. Hann mun hafa ferðast nokkuð mikið innanlands um tíma og tekið myndir, en varðveist hafa t.d. myndir frá Grímsey, Sauðárkróki, Mývatnssveit og fleiri nærsveitum.

Yngri hluti plötusafns Eiríks er frá þessu sama tímabili (1907-1910), eða um 1750 plötur, sem eru nú varðveittar hjá Ljósmyndasafni Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík. Þess má geta að á annað hundrað plötur voru í fórum Óla P. Kristjánssonar ljósmyndara en ekki er vitað hvað um þær varð.

Eiríkur fluttist til Vesturheims árið 1910 og starfaði þar sem ljósmyndari um tíma en hann lést í Winnipeg í Kanada þann 11. júní 1949.

Myndirnar á netsýningunni eru flestar teknar utan dyra, þar af er fjöldi atburðamynda. Einkennandi var fyrir Eirík hvað hann tók mikið af myndum utan dyra, ólíkt t.d. Sigríði Ingvarsdóttur sem hann vann með á stofunni um skeið, sem tók aðallega myndir af fólki innan dyra.

Úrval mynda Eiríks Þorbergssonar