Héraðsskjalasafn

Safnið er staðsett á 3. hæð Safnahússins á Húsavík. Þar er skjalageymsla ásamt lesaðstöðu fyrir gesti safnsins. 

Á Héraðsskjalasafni Þingeyinga eru varðveitt skjöl frá skilaskyldum aðilum og einkaaðilum í Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshreppi og Langanesbyggð. Á safninu eru einnig varðveitt skjöl úr þeim hreppum sem áður voru á þessu svæði og hafa nú sameinast í fyrrnefnd sveitarfélög.

Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn (nr. 77/2014) og reglugerð um héraðsskjalasöfn (nr. 283/1994). Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila á starfssvæðinu, varðveita þau og hafa aðgengileg fyrir notendur safnsins. Það er einnig hlutverk safnsins að taka á móti og varðveita skjöl frá öðrum en afhendingarskyldum aðilum. Einnig að veita skilaskyldum aðilum leiðsögn, aðstoð við skjalastjórn og hafa eftirlit með skjalavörslu þeirra. Þá skal safnið gangast fyrir rannsóknum úr safnkosti og vinna að því að gera skjöl aðgengileg almenningi.

Um safnið

Þann 7. janúar 1958 fór fram fyrsti fundur stjórnar Héraðsskjalasafns Þingeyinga (hét þá Héraðsskjalasafn Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstaðar). Stofndagur miðast við þennan fyrsta fund því þá hófst vinna safnsins, sem haldið hefur áfram allar götur síðan – mismikið á hinum ýmsu tímabilum. Raunar voru skjalagögn tekin að berast nokkru áður, en tekið var við þeim á Bókasafni Suður-Þingeyinga í húsi KÞ við Garðarsbraut.

Páll H. Jónsson, kennari á Laugum, vakti fyrstur máls á nauðsyn þess að stofna sérstakt héraðsskjalasafn. Hann ritaði Sýslunefnd Suður-Þingeyinga bréf, dags. 27. maí 1955, þar sem hann beindi þeirri tillögu til nefndarinnar að komið yrði upp héraðsskjalasafni fyrir sýsluna, í samræmi við lög um héraðsskjalasöfn , nr. 7, 12. febrúar 1947 og þágildandi reglugerð um sama efni frá 5. maí 1951. Jafnframt beindi hann því til sýslunefndarinnar hvort ekki myndi eðlilegt að hafa um stofnun slíks skjalasafns samráð við bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar. Ári síðar, eða 24. maí 1956, ítrekaði Páll H. þessa fyrirspurn til sýslunefndar. Málið var tekið fyrir á aðalfundi sýslunefndar, 29. maí 1956, en hann var sá síðasti sem Júlíus Havsteen stýrði, og þar var málið samþykkt (56. mál). Bæjarstjórn Húsvíkur samþykkti formlega 9. maí 1957 að gerast aðili að málinu og var Jóhann Skaptason, sýslumaður og bæjarfógeti, skipaður í stjórnina af hálfu Húsavíkurkaupstaðar en tveir fulltrúar sýslunefndar voru þeir Jón Gauti Pétursson, bóndi á Gautlöndum og Páll H. Jónsson, kennari á Laugum. Leitað var samvinnu við Norður-Þingeyinga en sýslunefnd þar var þá “..ekki viðbúin samvinnu um málið, að svo stöddu”.

Stjórnin hélt, eins og áður segir, sinn fyrsta fund 7. janúar 1958 og skipti með sér verkum. Jón Gauti varð formaður, Jóhann gjaldkeri og Páll H. Ritari. Safnið fékk aðstöðu í eldtraustu herbergi í aðalbyggingu Kaupfélags Þingeyinga og fyrstu menn, sem stjórn réð til vinnu við móttöku gagna, skráningu og frágang, voru Þórir Friðgeirsson en nokkru síðar Sigurður Egilsson. Stefán Pétursson, þáverandi þjóðskjalavörður, var Þingeyingur og sveitungum sínum hjálpsamur fyrstu skrefin, gaf góð ráð og útvegaði eitt og annað fyrir safnið. Á fjárlögum 1957 fékk safnið nokka fjármuni til kaupa á “filmum af skjölum í Þjóðskjalasafni”.

Lesaðstaða var afleit fyrst, og lengstum síðan, því enn er það svo að notendur safnsins fá aðstöðu inni á skrifstofu þar sem tveir starfsmenn eru oft að sinna störfum og getur því verið truflandi fyrir bæði safngestinn sem og starfsmenn. Á móti kemur að starfsmenn hafa reynt að “vera á hjólum” kringum gestinn, veitandi þá þjónustu sem í boði er á skjalasafni og skrifstofu. Þrátt fyrir annmarka, og skort á rými til ýmissa hluta, hefur safnið verið notað af leikum jafnt sem lærðum í gegnum árin. Fræðimenn hafa leitað þar fanga í rannsóknarvinnu jafnt og áhugafólk um ættfræði, örnefni og ýmsan sögulegan fróðleik.

Auðvelt er nú að finna það sem safnið geymir. Tölvuskráning á þáverandi spjaldskrá hófst 1993 og tók rúm 5 ár með hléum að skrá hana. Frá sama tíma (1993) hafa öll ný aðföng verið skráð í umrætt tölvukerfi, sem fengið var frá Þjóðskjalasafni Íslands og uppfært síðan eins og gefist hefur til. Við leit eða skoðun er ýmist leitað eftir skjalamyndara eða efni.

Héraðsskjalaverðir:

1980 – 1992 Finnur Kristjánsson
1992 – 2008 Guðni Halldórsson
2008 – 2009 Sigurjón B. Hafsteinsson
2009 – 2009 Sigrún Kristjánsdóttir
2009 – Snorri Guðjón Sigurðsson