Um Menningarmiðstöð Þingeyinga

Með formlegri stofnun Menningarmiðstöðvar Þingeyinga þ. 14. maí 2007 varð Byggðasafn Þingeyinga til og skiptist það í eftirfarandi deildir: Byggðasafn Suður-Þingeyinga á Grenjaðarstað, Byggðasafn Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík, Byggðasafn Suður-Þingeyinga - Sjóminjasafn og Byggðasafn Norður-Þingeyinga á Snartarstöðum. Auk byggðasafnanna heyra nú byggðasafn í Sauðaneshúsi á Langanesi, Myndlistarsafn Þingeyinga og Náttúrugripasafn Þingeyinga, bæði staðsett í Safnahúsinu á Húsavík, undir stofnunina. Auk þess rekur MMÞ Ljósmyndasafn Þingeyinga og Héraðsskjalasafn Þingeyinga sem einnig eru staðsett í Safnahúsinu á Húsavík.

Héraðsnefnd Þingeyinga samþykkti formlega á fundi 4. desember 2006 að stofnsett yrði „Menningarmiðstöð Þingeyinga“, sjálfseignarstofnun í rekstri sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum, sem yfirtæki eignir og þann rekstur sem fallið hafði undir Safnahúsið á Húsavík og Byggðasafn N-Þingeyinga á Snartarstöðum. Stofnaðilar voru Aðaldælahreppur, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Þingeyjarsveit. Það var svo á fundi Héraðsnefndar Þingeyinga í maí mánuði árið á eftir sem undirrituð var stofnskrá Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Aðalfundur Héraðsnefndar Þingeyinga var svo haldinn um miðjan júní það sama ár og þar var endanlega gengið frá kosningu í stjórn og varastjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.

Héraðsnefnd Þingeyinga var lögð niður árið 2024. Stjórnarskipan í dag er á höndum sveitarfélagana sem reka Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Að loknum sveitarstjórnarkosningum er valið í stjórn Menningarmiðstöðvarinnar og er starfstími hverrar stjórnar því 4 ár. Í stjórninni sitja í allt 6 manns , Tveir tilnefndir af Norðurþingi, tveir af Þingeyjarsveit, einn af Tjörneshrepp og einn af Langanesbyggð.  Jafnmargir varamenn skulu kjörnir hverju sinni. Stjórn skiptir með sér verkum.

Forstöðumenn / Safnstjórar

Fyrsti forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga var Guðni Halldórsson sem verið hafði jafnframt forstöðumaður Safnahússins á Húsavík frá árinu 1992. Eftirfarandi aðilar hafa í framhaldinu gegnt starfi forstöðumanns MMÞ:

2006 - 2008 Guðni Halldórsson

2008 - 2009 Sigurjón Baldur Hafsteinsson

2009 - 2011 Sigrún Kristjánsdóttir

2011 - 2018 Sif Jóhannesdóttir

2018 - 2022 Jan Aksel Harder Klitgaard

2022 - 2024 Sigríður Örvarsdóttir

2024 - Árni Pétur Hilmarsson