Snartarstaðir

Snartarstaðir hýsa Byggðasafn Norður-Þingeyinga og eru staðsettir í aðeins 1 km. fjarlægð frá Kópaskeri. Safnið var opnað árið 1991 í gamla skólahúsi staðarins og eru þar rúmlega 2000 munir til geymslu, en undirbúning safnsins má rekja aftur til ársins 1950 þegar söfnun á munum og minningum hófst. Einkennist sýningin í húsinu aðallega af annars vegar einstöku safni fjölbreyttra hannyrða sem unnar voru flestar af konum í Norður-Þingeyjarsýslu á síðustu öld, en hins vegar er þar að finna 9000 binda bókasafn hjónanna Helga og Andreu frá Leirhöfn á Melrakkasléttu.

 

Um safnið

Helgi í Leirhöfn og húfugerðin

Helgi í leirhöfn vann einnig að stórmerkilegri húfugerð sem einnig er hægt að fræðast um á safninu, skoða þar sýnishorn af húfunum hans og áhöld sem notuð voru til vinnunnar.

Þar gætir ýmissa muna

Hannyrðirnar eru alveg sér á báti á Snartarstöðum og geymir fjölbreytt safnið verðmætan útsaum, vefnað, prjónles og ekki síst einstaka kvenbúninga sem sýna fallegt handbragð. En auk hannyrðanna og bókanna eru þar margar skemmtilegar hefðbundnar menningarminjar gamla bændasamfélagsins á borð við byssur, járnsmíði, trésmíði og ýmsa heimilismuni. Þar má einnig sjá merkilega brunadælu, heimagerð leikföng og skemmtilega útskorin heimilisdýr sem auðvelt er að gleyma sér við að skoða.

Saga safnsins

Undirbúningur safnsins hófst þó upp úr 1950 þegar fólk sá fram á að glatast myndu ýmsir munir frá hinu gamla bændasamfélagi sem var að líða undir lok. Þeir hlutir sem áður fyrr voru lífsnauðsynlegir voru þarna smátt og smátt að hverfa úr notkun og því var byrjað að safna þeim saman. Árið 1959 fór Ragnar Ásgeirsson, þáverandi ráðunautur Búnaðarfélags Íslendinga, á hvern einasta bæ í Norður-Þingeyjarsýslu til þess að safna saman munum, en fékk misjafnar undirtektir þar sem margir sáu ekki tilganginn í að varðveita þessa muni sem í þeirra augum voru hversdagslegir og ómerkilegir. Lengi vel voru munirnir sem söfnuðust geymdir í geymslum víða um sýsluna en eignuðust loks framtíðarheimili þegar búið var að innrétta gamla skólahúsið sem safn árið 1991.

Safnið að Snartarstöðum er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga og er opið fyrir gesti yfir sumartímann.

Myndasafn

Snartarstaðir