Grenjaðarstaður

Grenjaðarstaður í Aðaldal er forn landnámsjörð og prestssetur sem staðsett er um 30 km. suður af Húsavík. Þar er að finna einn stærsta torfbæ landsins, sem sérstakur er fyrir þær sakir að vera einangraður með hrauni úr næsta nágrenni hans, undir þiljum unnum úr rekaviði. Gamli bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) sér um rekstur byggðasýningarinnar sem þar er að finna og endurspeglar hún lifnaðarhætti gamla bændasamfélagsins. Sýningin samanstendur af um 2000 munum úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga sem varpa ljósi á líf fólks sem bjó í bænum.

Á Grenjaðarstað er einnig að finna kirkju sem byggð var 1865 og er ennþá í notkun og í kirkjugarðinum geta gestir skoðað rúnastein frá miðöldum. Gamla hlaðan hefur verið endurgerð og hýsir í dag móttöku safnsins, snyrtingar, kaffisölu og handverkssölu úr héraði.

 

Um safnið

Elsti hluti Grenjaðarstaðar var byggður árið 1865 og búið var í bænum fram til ársins 1949. Bærinn er um 775 fermetrar og er mjög ríkulega búinn, enda var Grenjaðarstaður á tímabili eitt besta brauð landsins. Jörðin var stór og henni tilheyrði fjöldi hjáleiga, auk mikilla hlunninda á borð við laxveiði og reka. Það var því mjög eftirsóknarvert að vera prestur á Grenjaðarstað. Kirkjan á Grenjaðarstað var einnig byggð árið 1865 á grunni úr hraungrýti og í kirkjugarðinum má sjá rúnastein frá miðöldum.

Stór jörðin kallaði á mikinn mannskap og stundum bjuggu á þriðja tug manna í bænum. Á Grenjaðarstað var einnig pósthús og sá presturinn um að flokka póstinn.

Árið 1954 eignaðist Þjóðminjasafnið torfbæinn og hófust þá framkvæmdir við að koma bænum aftur í upprunalegt horf. Árið 1958 var svo byggðasafn opnað í húsinu og eru þar enn til sýnis á annað þúsund muna sem gefnir voru til safnsins af fólki úr nærsveitum. Flestir munirnir tengjast gamla bændasamfélaginu, en einnig má sjá muni sem sanna það hversu ríkulegur Grenjaðarstaðarbærinn var, svo sem gyllta ljósakrónu, innflutt postulín, handmálað veggfóður og danska kolaeldavél. Vatn sótti fólk í brunn skammt frá húsinu og hitann var helst að fá í stóra hlóðaeldhúsinu.

Eitt einkenni bæjarins er að veggir hans eru aðallega hlaðnir úr hraungrýti en ekki torfi. Ástæðan fyrir því að hraunið var notað frekar en torfið er sú að efniviðinn var mjög auðvelt að nálgast þar sem 2000-3500 ára gamlar hraunbreiður þekja stóran hluta Aðaldals. Frá Grenjaðarstað er gott útsýni yfir hraunið og Laxá.

Fjárhús, fjós og hlaða voru ekki áföst bænum heldur stóðu örlítið til hliðar. Þar er nú búið að endurreisa hlöðuna sem þjónustuhús og er þar afgreiðsla, nestisaðstaða og salerni.

Myndasafn

Grenjaðarstaður