Forsíða Safnahúsið
Starfsemi í Safnahúsinu á Húsavík
Miðvikudagur, 28. apríl 2010 11:54

Safnahúsið á HúsavíkSafnahúsið á Húsavík hýsir ýmsa menningartengda starfsemi Þingeyinga. Tvær fastasýningar eru í húsinu.

Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum” er á miðhæð hússins. Í henni tvinnast saman manngerðir munir úr byggðasafni Þingeyinga við náttúruminjar þannig úr verður skemmtileg heild sem leggur mikla áherslu á náin samskipti manns og náttúru. Sýningin tekur fyrir tímabilið 1850-1950 þegar íslenska bændasamfélagið fór að líða undir lok og nýjar tækninýjungar hófu innreið sína með þeim afleiðingum að fólk fór að fjarlægjast náttúruna í sínu daglega lífi. Þetta er í raun síðasta tímabilið sem fólk þurfti að reiða sig á samspilið við náttúruna til þess að hafa í sig og á. Sýningunni er skipt í steinaríki, dýraríki og jurtaríki og leiða 1. persónu frásagnir heimafólks gestinn í gegnum sýninguna.

Innan “Mannlífs og náttúru” má einnig sjá litla sýningu um sögu Samvinnuhreyfingarinnar þar sem hægt er að kynna sér ríkulega sögu kaupfélaga. Fyrsta kaupfélagið á Íslandi var Kaupfélag Þingeyinga, stofnað árið 1882 á bænum Þverá í Laxárdal. Eftirlíkingu af stofunni þar sem félagið var stofnað má sjá á sýningunni.

 

Hin fastasýning Safnahússins er Sjóminjasýning. Hún gefur glögga mynd af þróun útgerðar og bátasmíði í Þingeyjarsýslum, allt frá árabátaöldinni fram til vélbátaútgerðar. Þar eru húsvískum bátasmiðum gerð góð skil og fjallað er um mikilvægi hafsins fyrir þróun byggðarinnar á svæðinu. Margir bátar eru á sýningunni en sá stærsti er Hrafninn, teinæringur sem Norðmenn gáfu til Húsavíkur árið 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Einnig má sjá fjölda veiðarfæra, tækja og tóla sem notuð voru við fiskveiðar, sel- og hákarlaveiði, sjófuglanytjar, fiskverkun og bátasmíði.

 

Í Safnahúsinu eru að auki tvö rými sem eru nýtt undir tímabundnar sýningar. Þá er einnig að finna Héraðsskjalasafn Þingeyinga, bókasafn, skrifstofur og geymslur safngripa í húsinu, auk þess sem ýmsir viðburðir, t.d. tónleikar og fyrirlestrar, eru reglulega haldnir þar. Á efstu hæð er góð aðstaða fyrir þá sem vilja kynna sér heimildir í Héraðsskjalasafninu til að setjast niður og grúska í gífurlegu magni heimilda í formi ljósmynda, kvikmynda, talaðs máls og ritaðs texta.

 

Safnahúsið á Húsavík er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga og er opið fyrir gesti allt árið um kring.

 
 
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing