Forsíða Publication Eyðinýbýli
Eyðinýbýli á Fljóts- og Mývatnsheiðum
Tuesday, 16 February 2021 00:00

Eyðinýbýli á Fljóts- og Mývatnsheiðum.

Austan við Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu liggja grösugar heiðar, Fljótsheiði og Mývatnsheiði. Heiðarnar afmarkast að austan af Reykjadal og Mývatnssveit. Nokkur býli hafa verið á þessum heiðum frá fornu fari, en á 19. öldinni voru byggð þarna mörg nýbýli. Þetta tengdist fólksfjölgun í sveitum á þessum tíma. Einnig var tíðarfar hagstætt um miðja 19. öldina og þá varð mögulegt að stunda búskap á stöðum sem kalla mætti jaðarsvæði. Í lok 19. aldar versnaði árferði og upp úr 1900 komu ný atvinnutækifæri í þorpum og kaupstöðum við sjávarsíðuna. Hnignaði þá byggðinni á Fljóts- og Mývatnsheiðum og nú eru einnungis örfá býli á þessum heiðum enn í byggð.

Ragnar Árnason (1926-2016), verkfræðingur, var fæddur í Skógarseli á Seljadal sem er austan til á Fljótsheiði. Eftir að Ragnar fór á eftirlaun, tók hann saman íbúaskrá fyrir heiðarbýlin á Fljóts- og Mývatnsheiðum. Ragnar lagði afar mikla vinnu í þessa skrá, einkum á árunum 1997 til 2009. Rit Ragnars greinir frá heimilisfólki á 17 býlum á heiðunum, svo og uppruna þess og afdrifum. Ragnar afhenti Þormóði Ásvaldssyni bónda á Ökrum í Reykjadal ritverk sitt og hugmyndin var sú að það yrði gefið út í einhverri mynd. Rit Ragnars geymir geysimiklar upplýsingar um byggðina á heiðunum. Mikilvægt er að sá fróðleikur verði aðgengilegur til frambúðar, bæði fyrir almenning og fræðimenn. Að vel athuguðu máli varð niðurstaðan sú að gefa rit Ragnars út sem vefrit á vegum Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Þar með er tryggt að hin mikla vinna Ragnars frá Skógarseli glatast ekki, heldur verður aðgengileg komandi kynslóðum.

Ingvar Teitsson


Opna í lesham
 
 
Banner
Banner
Banner
Banner