Forsíða MMÞ Byggðasafn
Byggðasafn Þingeyinga
Fimmtudagur, 03. maí 2012 09:31

Byggðasafn Þingeyinga

Byggðasafn Þingeyinga var formlega stofnað á Grenjaðarstað 9. Júlí 1958. Starfs- og söfnunarsvæði þess er frá Þingeyjarsveit í vestri  að Langanesbyggð í austri, þ.e. þau sex sveitarfélög sem standa að Héraðsnefnd Þingeyinga. Safnið skiptist í Byggðasafn Suður-Þingeyinga og Byggðasafn Norður-Þingeyinga. Hlutverk Byggðasafns Þingeyinga er að safna, skrásetja, varðveita, forverja, rannsaka og kynna menningarsögulegar minjar úr Þingeyjarsýslum. Minjum sem hafa sögulegt gildi fyrir héraðið og varpað geta ljósi á  líf og starf Þingeyinga á hinum ýmsu tímum. Ennfremur er það í verkahring safnsins að kynna íslenskan menningararf á sem breiðustum grundvelli.

 

Byggðasafn Norður-Þingeyinga

Sýning safnsins var opnuð formlega 28. júlí 1991 sem telst stofndagur safnsins. Söfnun muna hafði hafist 30 árum fyrr m.a.a á vegum búnaðarsambands sýslunnar er farið var á alla bæi og falast eftir gripum. Gamla skólahúsið á Snartarstöðum var keypt undir starfandi söfn sýslunnar eftir að hætt var að nota það sem skólahús 1982. Söfnunarsvæði safnsins var og er í öllum sveitarfélögum innan sýslumarka Norður-Þingeyjarsýslu. Safnað var munum úr bændasamfélagi fyrri tíðar. Mikið barst af handverksmunum og hefur fjölbreytilegt og fallegt handverk síðan verið eitt megineinkenni sýningarinnar á Snartarstöðum.  Bókasafn Helga Kristjánssonar frá Leirhöfn er hluti af Byggðasafni Norður-Þingeyinga.

 

Byggðasafn Suður-Þingeyinga

Upphafið að starfsemi Byggðasafns Suður-Þingeyinga var árið 1950 er gerð var samþykkt hjá Bændafélagi Þingeyinga um að hefja söfnun á munum og vinna að undirbúningi að stofnun sérstaks byggðasafns fyrir héraðið.  Skipuð var þriggja manna undirbúningsnefnd sem vann að málinu næstu ár á eftir. Gripum var safnað í öllum sveitarfélögum í Suður-Þingeyjarsýslu, fyrst óskipulega en síðar skipulega innan hvers hrepps. Byggðasafnið var opnað 9. júlí 1958 í gamla bænum á Grenjaðarstað í Aðaldal. Hlutverk safnsins er að safna , skrásetja, forverja, varðveita, rannsaka og kynna menningarsögulegar minjar úr Þingeyjarsýslum. Einnig að varpa ljósi á líf og starf Þingeyinga á hinum ýmsu tímum. Innan Byggðasafn Suður-Þingeyinga eru starfræktar 3 deildir: sérsýning í gamla bænum á Grenjaðarstað, sýningar, rannsóknir og skráning í Safnahúsinu á Húsavík og Sjóminjasafnið.  Á vegum sjóminjasafnsins hefur minjum og heimildum verið safnað bæði í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu.

 
 
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing