Forsíða District Archives
Hálfdan Jakobsson frá Mýrarkoti
Tuesday, 09 August 2011 08:48

Vorið 2011 barst Héraðsskjalasafninu bréfasafn Hálfdans Jakobssonar frá Mýrarkoti. Vinna við flokkun og skráningu safnsins er nú lokið og í þessu pdf-skjali má sjá yfirlit yfir bréfasafnið.

Hálfdan Jakobsson um 1910-1915

Hálfdan fæddist þan 26. maí 1873. Hann var sonur Jakobs kaupfélagsstjóra Hálfdanarsonar og konu hans Petrínu Kristínu Pétursdóttur.

Áður en hann hóf búskap á Tjörnesi fór hann víða um heim og stundaði allskyns störf, búskap í Manitóba, fiskveiðar í Seattle, gullgröft um fimm ára skeið í Klondyke.

Hálfdan fór vestur árið 1893 og settist að við Manitóbavatn. Gullhugur var mikill hjá ungum mönnum vegna gullfundanna í Klondyke og þegar Hálfdán hitti æskufélaga sinn Sveinbjörn Guðjónsson nýkominn að heiman varð það úr að þeir fóru báðir norður í Klondyke. Þeir voru fimm ár og tókuþar land og fundu nokkurt gull en auðugir menn urðu þeir ekki nema hvað þeir urðu reynslunni rikari, því hvergi sagðist Hálfdán hafa kynnzt jafn taumlausri ágirnd og óvægi við aðra þar sem allir ætluðu að verða ríkir á augabragði og hvað sem það kostaði. Heim til Íslands kom Hálfdán aftur haustið 1903 eftir 10 ára ævintýraríkt "heims-flakk" eins og hann kallaði það sjálfur.

Eftir heimkomuna stóð hann fyrir brennisteinsnámi á Þeistareykjum fyrir Englending, Black að nafni, sem þá hafði námurnar á leigu. Hann ferðaðist líka mikið með útlendingum um landið þessi ár og lenti oft í erfiðum ferðum sem bæði þurfti karlmennsku og áræði til að komast í gegn um.

Árið 1905 keypti hann jörðina Héðinshöfða við Húsavík, og bjó þar í fimm ár, þá seldi hann jörðina en keypti Mýrarkot á Tjörnesi nokkru seinna og bjío þar til dauðadags.

Hálfdan Jakobsson lést þann 22.september 1955, áttatíu og tveggja ára að aldri.

 
 
Banner
Banner
Banner
merki_125-125
Banner